Flugöryggismálastofnun Evrópusambandsins, EASA, ætlar að veita leyfi fyrir því að flugvélar Boeing af tegundinni 737 MAX megi fljúga á nýjan leik í næstu viku, 22 mánuðum eftir að þær voru kyrrsettar vegna tveggja mannskæðra slysa.
„Hvað okkur varðar getur MAX byrjað að fljúga aftur í næstu viku“ eftir að gefnar hafa verið út leiðbeiningar, sagði Patrick Ky, yfirmaður EASA.
Hann bætti við að fjórar helstu kröfur stofnunarinnar hafi verið uppfylltar.
MAX-vélarnar voru kyrrsettar í mars 2019 eftir tvö slys þar sem 346 manns fórust. Fyrst hrapaði flugvél Lion Air til jarðar árið 2018 í Indónesíu og árið eftir vél Ethiopian Airlines.
Grænt ljós hefur þegar verið gefið í Bandaríkjunum og í Brasilíu á að vélarnar fari í loftið. Kanadísk yfirvöld munu líklega gera slíkt hið sama síðar í þessari viku.