Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að uppgreiðslugjald lántakenda að lánum sem tekin voru hjá Íbúðalánasjóði á árunum 2005-2013 séu ólögleg hefur fengið flýtimeðferð og fer beint fyrir Hæstarétt.
Þetta staðfestir aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við mbl.is.
Samkvæmt dómi, sem féll í byrjun desember í fyrra, var ÍLS óheimilt að krefja lánþega um greiðslu uppgreiðslugjalda þegar þeir greiddu lán sín upp.
Bjarni sagði á Alþingi 10. desember að óskað yrði eftir beinni meðferð fyrir Hæstarétti, fram hjá Landsrétti, til að málsmeðferðartíminn yrði sem stystur.
Í tilkynningu frá ríkinu eftir að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur féll kom fram að innheimtir hefðu verið 5,2 ma.kr. í sambærilegum uppgreiðsluþóknunum og að ógjaldfallin uppgreiðslugjöld virkra lána væru um 3 ma.kr., en gjöldunum var ætlað að mæta kostnaði sjóðsins af uppgreiðslu lána. Heildar hagsmunir vegna málsins væru því rúmir 8 milljarðar króna. Þá kemur fram að málið nái til 8.500 lántakenda með uppgreiðslugjald.