Fyrrverandi yfirmaður í verksmiðju flugvélaframleiðandans Boeing í Seattle í Bandaríkjunum hefur enn áhyggjur af öryggismálum 737 Max-flugvéla fyrirtækisins.
Ed Pierson segir að frekari rannsóknir á rafmagnsvandamálum og framleiðslugæðum þurfi sárlega að fara fram, en flugvélar af þessari gerð, sem voru kyrrsettar um heim allan í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa, hafa þegar fengið flugleyfi að nýju í Bandaríkjunum og í Brasilíu og búist er við því að Evrópa fylgi í þessari viku.
Eftirlitsstofnanir bæði í Bandaríkjunum og Evrópu fullyrða að nægar prófanir hafi farið fram og flugvélarnar teljist nú öruggar.
Í skýrslu sinni vegna málsins segir Pierson hins vegar að rannsóknaraðilar hafi að miklu leyti hunsað þætti sem hann telur að hafi átt mikinn þátt í flugslysunum. Tengir hann þá sérstaklega aðstæðum í verksmiðju Boeing í Renton á þeim tíma sem flugvélarnar voru framleiddar. Boeing neitar ásökunum Piersons.