Nokkrar breytingar voru gerðar á lánareglum Gildis á fundi stjórnar lífeyrissjóðsins í síðustu viku.
Veðhlutfall lána hækkar í 75% en það var 70% áður. Eftir breytinguna fá sjóðfélagar grunnlán fyrir allt að 65% af virði eignar í stað 60% áður. Ofan á það geta sjóðfélagar fengið viðbótarlán upp í 75% af virði eignar.
Óverðtryggðir breytilegir vextir lækka um 20 punkta, sem þýðir að vaxtakjör óverðtryggðra lána hjá Gildi eru ein þau allra bestu sem í boði eru, að því er segir í tilkynningu.
Verðtryggðir breytilegir vextir lækka um 10 punkta.
Fram kemur að síðustu mánuði hafi uppgreiðslur lána hjá lífeyrissjóðum verið talsvert umfram nýjar lánveitingar. Með breytingunni á lánareglum og vaxtakjörum nú vilji stjórn Gildis bregðast við þessari þróun.
Breytingin á veðhlutfalli lána hefur þegar tekið gildi en ný vaxtatafla tekur gildi 5. febrúar.
„Landsmönnum hafa síðustu ár boðist lán á allt öðrum og betri kjörum en áður þekktist og það má að stærstum hluta rekja til sterkrar innkomu lífeyrissjóða á lánamarkaðinn á árunum 2015 til 2016. Síðustu mánuði hafa bankarnir náð að bregðast við, lækkað vexti á lánum sínum, og orðið ráðandi á fasteignalánamarkaði á ný. Með breytingunni nú vill Gildi bregðast við þessari þróun og bjóða upp á lán á kjörum sem eru að fullu samkeppnishæf,“ segir í tilkynningunni.
Þar segir einnig að breytingin gefi kost á hærri lántöku sem muni sérstaklega koma fyrstu kaupendum íbúða, yngra fólki og tekjulágu, til góða.