Stefnir í aukinn skort á íbúðarhúsnæði næstu ár

Samkvæmt spá HMS stefnir í aukinn skort á íbúðahúsnæði á …
Samkvæmt spá HMS stefnir í aukinn skort á íbúðahúsnæði á komandi árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þörf fyrir nýjar íbúðir til næstu áratuga hefur aukist og er nú áætluð þörf fyrir að meðaltali 1.900 nýjar íbúðir á hverju ári fram til ársins 2040 samkvæmt uppfærðri íbúðaþarfagreiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Samkvæmt síðustu útgáfu greiningarinnar, sem kom út í nóvember 2019, var áætluð meðalþörf 1.800 íbúðir á ári.

Er ástæða þessa meðal annars aðeins hraðari fjölgun landsmanna samkvæmt nýrri mannfjöldaspá Hagstofunnar. Þá hefur aldursþróun einnig mikið að segja, en búist er við að hlutfall íbúa eldri en 65 ára muni hækka úr 15% í 20% á næstu 20 árum og að fólki á aldrinum 25 til 45 ára muni fækka úr 30% í 25% af mannfjölda. Er talið að rekja megi nærri 95% af fjölgun einstaklingsheimila til þess að þjóðin sé að eldast.

Óuppfyllt íbúðaþörf samkvæmt nýjustu greiningu HMS.
Óuppfyllt íbúðaþörf samkvæmt nýjustu greiningu HMS. Graf/HMS

3.950 íbúðir vantar á markaðinn

Uppsöfnuð óuppfyllt íbúðaþörf hefur minnkað nokkuð síðustu tvö ár, en mun á næstu árum aukast aftur. Óuppfyllta þörfin fór hæst í um 6.000 íbúðir árið 2019. Samkvæmt greiningu HMS minnkaði hún um 1.700 íbúðir á síðasta ári og er nú metið að 3.950 íbúðir vanti á markaðinn.

Samkvæmt HMS náði byggingarmagn ársins 2020 að vinna talsvert upp af óuppfylltu þörfinni og þá dró úr fólksfjölgun vegna faraldursins. Þá hafi fjöldi íbúða sem var í skammtímaleigu farið á íbúðamarkaðinn, en óvíst er hversu hratt markaður fyrir skammtímaleiguhús til ferðamanna mun vaxa á ný á næstu árum.

HMS spáir því að fjöldi íbúða í byggingu sé umtalsvert …
HMS spáir því að fjöldi íbúða í byggingu sé umtalsvert undir þörf markaðarins næstu ár. Graf/HMS

Uppsöfnuð þörf mun aukast á næstu árum

Spáir HMS því að á þessu ári muni uppsöfnuð þörf eftir íbúðum aukast um 700 og svo um 1.600 íbúðir á næsta ári. Stærsta ástæðan er sú að þörfin er að aukast umfram fjölgun íbúða, auk þess sem gert er ráð fyrir að ferðaþjónustan taki við sér og fleiri íbúðir rati inn á skammtímaleigumarkaðinn.

Þetta gefur til kynna að byggja þurfi meira en núverandi spár gera ráð fyrir til að sporna við aukningu á óuppfylltri íbúðaþörf á næstu árum. Ef fram fer sem horfir, gæti óuppfyllt íbúðaþörf aukist í svipaða tölu árið 2023 og hún var árið 2019,“ segir í greiningunni.

Þyrfti 2.970 íbúðir árlega næsta áratuginn

Á næstu 5-10 árum er því spáð að íbúðaþörf muni aukast hvað hraðast, en að eftir 2030 muni draga verulega úr óuppfylltri íbúðaþörf til ársins 2040. Vegna þessa þarf mestur kraftur í nýbyggingu að vera á fyrri hluta tímabilsins og segir í greiningunni að til að mæta óuppfylltri íbúðaþörf til ársins 2030 þurfi 2.970 íbúðir á ári.

Spá HMS um fjölda fullkláraðra íbúða á næstu árum.
Spá HMS um fjölda fullkláraðra íbúða á næstu árum. Graf/HMS

Til samanburðar voru fullkláraðar íbúðir árið 2019 samtals 3.033 og höfðu ekki verið fleiri frá árinu 2006. Meðaltal síðustu áratuga er um 1.840 íbúðir á ári, en miðað við áætlun HMS er talið að um 2.600 íbúðir hafi klárast í fyrra og að 2.300 til 2.500 íbúðir verði fullkláraðar árlega frá 2021-2023.

Bent er á að samkvæmt húsnæðisáætlun sveitarfélaga sé þörf fyrir íbúðir metin á 2.700 íbúðir á ári næstu fjögur ár, en það sé nálægt neðra mati HMS.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK