Kröfu Stefáns Eysteins Sigurðssonar, um viðurkenningu á að launakrafa hans í þrotabú WOW air njóti forgangs við gjaldþrotaskipti búsins, var hafnað í Hæstarétti nú síðdegis. Krafa Stefáns, fyrrverandi fjármálastjóra WOW air, hljóðaði upp á rúmar 14 milljónir króna.
Fallist var á kröfu Stefáns Eysteins bæði fyrir Landsrétti og Héraðsdómi Reykjavíkur, fyrst í júní og svo í október á síðasta ári, en skiptastjóri þrotabúsins hélt því fram að Stefán Eysteinn hafi verið stjórnandi eða svokallaður nákominn aðili fyrirtækisins og eigi því ekki rétt á forgangskröfu.
Almenna reglan við uppgjör þrotabúa hefur verið sú að þeir sem koma að rekstri félaga eigi ekki rétt á forgangskröfum, en þeir eru taldir vita meira um stöðu viðkomandi félags en venjulegir starfsmenn og um það var tekist í máli fjármálastjórans fyrrverandi.
Hæstiréttur taldi Stefán Eystein nákominn aðila og úrskurðaði að hann ætti ekki rétt á forgangskröfu, eins og fyrr segir.