Fimm vísindamönnum sagt upp

Ísor sinnir orkurannsóknum og ráðgjöf.
Ísor sinnir orkurannsóknum og ráðgjöf. Ljósmynd/Heimir Ingimarsson

Íslenskar orkurannsóknir ÍSOR hafa sagt upp fimm starfsmönnum. Segir í tilkynningu um málið að ástæðan sé útlit fyrir erfitt rekstrarár 2021. Þá hefur starfshlutfall 2/3 hluta starfsmanna verið skert um 10-25%. Að sögn Árna Magnússonar forstjóra voru gerðir samningar þess efnis til sex mánaða við starfsfólkið. 

Í tilkynningu segir að aðgerðirnar markist af minnkandi umsvifum íslenskra orkufyrirtækja sem sögð eru halda að sér höndum á árinu. Þá er Covid faraldurinn einnig sagður hafa áhrif.

Geta ekki fengið hlutabætur 

Árni Magnússon, forstjóri ÍSOR.
Árni Magnússon, forstjóri ÍSOR. Ljósmynd/Aðsend

67 starfsmenn störfuðu hjá ÍSOR fyrir uppsagnirnar. Árni Magnússon segir í samtali við mbl.is að starfsfólki sem sagt var upp séu vísindamenn hjá stofnuninni. „Starfsfólk okkar getur ekki fengið hlutabætur eftir breytingar sem gerðar regluverki um þær seint á síðasta ári. Helgast það af því að við erum ekki eins og venjulegur skattgreiðandi þar sem við erum í eigu ríkisins,“ segir Árni.

Hann segir að eftir að rétturinn til þess féll út hafi verið ljóst að grípa þurfi til aðgerða. „Vinnuveitandi getur ekki gert kröfu um skert starfshlutfall. Það samtal hefur verið í gangi við okkar starfsfólk í þessum mánuði,“ segir Árni. Hann segir að vonir standi til þess að hægt verði að stytta þann tíma sem fólk þarf að sæta skertu starfshlutfalli úr þeim sex mánuðum sem samið var um. Til þess að svo megi verða þarf bætta verkefnastöðu. 

Hann segir að einnig hafi verið rætt við fólk sem komið var á eftirlaunaaldur og þá sem gátu farið á eftirlaun að hluta. „Við leituðum allra leiða til að lækka kostnað,“ segir Árni. 

Kallar á aðhaldsaðgerðir  

„ÍSOR er í eigu ríkisins og aflar sinna tekna með sölu á þjónustu. Án viðbragða við versnandi horfum á markaði stefndi í alvarlegan halla á rekstri ÍSOR á þessu ári. Það kallar á aðhaldsaðgerðir hjá stofnunni,“ segir í tilkynningu. 

„Þegar hafa verið stigin skref til að draga úr húsnæðiskostnaði ásamt öðrum skipulags- og hagræðingaraðgerðum auk þess sem áfram er unnið að því að afla aukinna verkefna,“ segir í tilkynningu.  

Í ljósi rekstrarstöðu ÍSOR verður ekki komist með öllu hjá fækkun stöðugilda. Því hefur nú verið gengið frá starfslokum 5 starfsmanna,“ segir í tilkynningu

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK