Hagnaður sænsku tískuvörukeðjunnar H&M dróst saman um 90% á síðasta ári vegna kórónuveirunnar. Samdrátturinn er margfalt minni á Íslandi enda hefur ekki þurft að loka búðum hér á landi. Um þriðjungur allra H&M búða er lokaður um þessar mundir en alls eru starfræktar um 5.000 H&M búðir í heiminum.
Hagnaður H&M keðjunnar nam 1,24 milljörðum sænskra króna á síðasta rekstrarári. Það svarar til 19 milljarða íslenskra króna. Salan dróst saman um 20% og var 187 milljarðar sænskra króna á rekstrarárinu sem lauk í lok nóvember.
Á Íslandi seldi H&M fyrir 221 milljón sænskra króna, tæpa 3,9 milljarða íslenskra króna, á rekstrarárinu samanborið við 251 milljón árið á undan. Þetta er 12% samdráttur á milli ára í sænskum krónum en 2% í íslenskum krónum.
Þegar afkoma félagsins var kynnt í morgun kom fram að stefnt sé að því að opna 100 nýjar búðir á yfirstandandi rekstrarári. Á sama tíma verður 350 búðum lokað sem nú eru í rekstri. Reksturinn var sérstaklega erfiður á öðrum fjórðungi rekstrarársins er fyrsta bylgja kórónuveirufaraldursins reið yfir. Þá urðu tæplega 80% H&M verslana að loka.
Í Frakklandi dróst salan saman um 28%, 24% á Ítalíu, 17% í Bandaríkjunum og 16% í Bretlandi.