182 hleðslustæði verða tekin í notkun hjá ON í febrúar. Stæðin, sem staðsett eru á 32 stöðum í Reykjavík og fjórum stöðum í Garðabæ, eru fyrir tvo til sex rafbíla í hleðslu.
Hleðslunum verður komið fyrir í samstarfi við sveitarfélögin tvö við almenn bílastæði í þeirra eigu; við skóla, verslanir, sundlaugar og menningarstofnanir.
„Með þessari innviðauppbyggingu er tekið stórt skref til að efla orkuskipti og koma til móts við þarfir allra rafbílaeigenda, þ.m.t. einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir,“ segir í tilkynningu.
Til að geta nýtt sér hleðslurnar þurfa rafbílaeigendur að vera með ON-lykil. Þegar er um helmingur hleðslustöðvanna kominn upp og gert er ráð fyrir að klára uppsetningar á öllum staðsetningum á næstu vikum.