Magnús Magnússon, sem hóf störf sem framkvæmdastjóri stefnumótunar og rekstrar hjá Högum í dag, hefur keypt hlutabréf í félaginu fyrir 5,75 milljónir. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar vegna viðskipta innherja.
Fram kemur í tilkynningunni að Magnús hafi keypt bréfin í gegnum félagið 2M ehf., en um er að ræða 100 þúsund hluti á genginu 57,5 krónur á hlut.
Tilkynnt var um ráðningu Magnúsar í síðustu viku, en hann hefur undanfarin ár starfað sem sjálfstæður ráðgjafi. Áður leiddi hann stefnumótunarteymi Marels og fyrir það starfaði hann sem ráðgjafi hjá alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey & Company.
Magnús er með M.Eng.-gráðu í iðnaðarverkfræði og aðgerðagreiningu frá UC Berkeley í Kaliforníu, og B.Sc.-gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.