Lára Ómarsdóttir hefur verið ráðin samskiptastjóri Aztiq Fund.
Fram kemur í tilkynningu frá félaginu, að Aztiq Fund hafi verið virkur langtímafjárfestir hérlendis og erlendis, meðal annars í fasteignum, lyfjaiðnaði, heilsueflingu og menningarauði.
„Hlutverk Láru verður að halda utan um samskipti við hagaðila, þar á meðal yfirvöld, fjölmiðla og fjárfesta og að byggja upp vitund á fyrirtækinu. Hún mun einnig taka virkan þátt í að móta stefnu félagsins til framtíðar, en félagið hyggur á frekari fjárfestingar hérlendis og erlendis sem og að stækka fjárfestahópinn, sem nú þegar samanstendur af öflugum íslenskum og erlendum einstaklingum sem og alþjóðlegum fjárfestingarsjóðum,“ segir í tilkynningunni.
Lára hefur víðtæka reynslu af fjölmiðlum, sem fréttamaður, vefritstjóri og dagskrárgerðarkona bæði í útvarpi og sjónvarpi og býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu á starfi fjölmiðla. Í starfi sínu hefur hún meðal annars vakið athygli fyrir umfjöllun um félagsleg málefni og náttúru Íslands. Lára lauk B.ed gráðu í íslensku og stærðfræði árið 2004. Áður starfaði hún meðal annars sem innkaupastjóri og sem framkvæmdastjóri knattspyrnufélags. Hún hefur skrifað eina bók, Hagsýni og hamingja, að því er fram kemur í tilkynningu.
„Það er okkur sönn ánægja að fá Láru til starfa í Aztiq,“ segir Árni Harðarson stjórnarmaður hjá Aztiq Fund. „Með því stígum við mikilvægt skref í þá átt að sameina fjárfestingar eigenda undir einum hatti og skapa þannig öflugt fjárfestingafélag sem mun verða virkur þátttakandi í uppbyggingu atvinnulífs og auðugs samfélags á Íslandi. Ég er sannfærður um að víðtæk reynsla Láru af fjölmiðlum muni nýtast í vitundaruppbyggingu félagsins og í samskiptum við hagaðila.“