Kolbrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Reykjavík Sportbar, stefnir að því að enduropna staðinn á Hverfisgötu 40-44 í vor.
Reykjavík Sportbar var opnaður á Skólavörðustíg 8 í nóvember 2019. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á og samkomubann tók gildi þurfti hins vegar að loka staðnum aðeins fjórum mánuðum eftir opnun.
Að sögn Kolbrúnar var leigusamningi sagt upp til að lágmarka skaðann, þegar ljóst varð að starfsemin myndi raskast í lengri tíma.
„Svo þegar við sáum fram á að það væri mögulega að birta yfir tókum við Björn Þórisson faðir minn eftir þessu húsnæði en hann átti Snóker- og poolstofuna á Hverfisgötu 46 í gamla daga en seldi hana árið 2006,“ segir Kolbrún. Stefnt sé að því að opna nýja staðinn í byrjun mars en það ráðist af sóttvarnareglum. Hún væntir mikillar eftirspurnar eftir afþreyingu í miðborginni þegar fólk getur komið saman á ný. Þá sé enginn slíkur staður í miðbænum.
Á staðnum verða m.a. átta poolborð og fjögur píluspjöld, ásamt góðri aðstöðu til að horfa á boltann.