Finnur tjáir sig ekki

Finnur Árnason, fv. forstjóri Haga.
Finnur Árnason, fv. forstjóri Haga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Finnur Árnason, fyrrverandi forstjóri Haga, kveðst ekki munu tjá sig um málefni félagsins. Tilefnið er viðtal í ViðskiptaMogganum við framkvæmdastjóra Bónuss. 

Nánar tiltekið gagnrýndi Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, þá stefnu Haga að kaupa félög í óskyldum rekstri. Taldi þau viðskipti hafa takmarkaðan ávinning i för með sér fyrir Haga og neytendur.

Mikil umræða var um starfslokasamninga Finns og Guðmundar í fyrravor. Finnur hætti hjá Högum en Guðmundur hætti við að hætta.

Guðmundur setur í samtali við ViðskiptaMoggann spurningarmerki við kaup Haga á Olís. 

Hagar hafi ekki skuldað nógu mikið

„Ég var til dæmis ósáttur við kaupin á Olís en með þeim misstum við þrjár Bónus-búðir [að kröfu Samkeppniseftirlitsins]; á Hallveigarstíg, á Smiðjuvegi og í Faxafeni. Áður en Hagar keyptu Olís og Reykjavíkur Apótek ræddu fjármálasérfræðingar um að Hagar skulduðu ekki nógu mikið og allt í einu heyrði maður hugtök sem maður skildi ekki alveg; ég hélt að best væri að skulda sem minnst. Ég tel að best sé að vaxa á eigin verðleikum.

Vöxturinn á að koma innan frá. Það er það sem Hagar standa fyrir. Stefnan hjá þeim feðgum [Jóhannesi Jónssyni og Jóni Ásgeiri] var að ef Hagar eignuðust eitthvað skyldi það koma neytendum til góða. Hagar fengu undanþágu frá Samkeppniseftirlitinu til að kaupa apótek og olíufélag. Við þurfum að leggja okkur fram um að sýna að slíkt eignarhald Haga komi neytendum að lokum til góða. Vissulega er enn unnið að hagræðingu í kjölfar kaupanna og endanlegur ávinningur þeirra er ekki að öllu leyti kominn fram. Annars tel ég að Hagar ættu almennt ekki að kaupa fyrirtæki ef Samkeppniseftirlitið þarf að gera undanþágur og/eða setja skilyrði fyrir því og ávinningur neytenda er ekki augljós,“ sagði Guðmundur.

Ítarlega er rætt við Guðmund í ViðskiptaMogganum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK