Eins og rakið var í ViðskiptaMogganum fyrir hálfum mánuði telur KSÍ viðskiptatækifæri skapast með yfirbyggðum Laugardalsvelli.
Af því tilefni aflaði ViðskiptaMogginn upplýsinga um svonefndan „ofurleik“ sem fram fór á Laugardalsvelli fjórða ágúst 2017, föstudaginn fyrir verslunarmannahelgi.
Manchester City og West Ham leiddu þá saman hesta sína og lauk leiknum með 3:0 sigri City.
Miðasala á leikinn var ekki í samræmi við væntingar. Fram kom í Morgunblaðinu 28. júlí, viku fyrir leikinn, að seldir hefðu verið rúmlega 3.000 miðar, af rúmlega 9.000, í vestur- og austurstúku.
Sænskt fyrirtæki stóð fyrir leiknum. Þegar miðasalan reyndist dræm fékk það íslenska markaðsstofu til að aðstoða við kynningu og smölun á leikinn. Fór svo að mæting var ágæt þótt ekki væri uppselt.
Samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans var rætt um að endurtaka leikinn sumarið 2018 en hætt var við það vegna HM í knattspyrnu. Þá var skoðað að halda ofurleik sumarið 2018 með enn vinsælli liðum á Íslandi. Arsenal var tilbúið að koma sem og Manchester United og City en illa gekk að finna styrktaraðila.
Kostnaður við að fá liðin til landsins mun vera um milljón evra, eða um 155 milljónir króna, og því gekk dæmið ekki upp án stuðnings. Taldi viðmælandi blaðsins að viðskiptalíkanið yrði raunhæfara með fleiri sætum á vellinum. Ekki sé útlit fyrir að leikurinn verði endurtekinn í bráð. Aðsóknarmet var sett 19. ágúst 2004 en þá seldust 20.204 miðar á vináttuleik Íslands og Ítalíu, sem Ísland vann 2:0.