Ef áætlanir Marels til næstu fimm ára ná fram að ganga mun um fjórðungur tekna félagsins koma frá löndum í Asíu, þar á meðal Kína, og frá Eyjaálfu. Þetta segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, í samtali við ViðskiptaMoggann. Um 10% af tekjum félagsins koma frá svæðinu, þar sem umfangsmikil viðskipti eru nú þegar, til dæmis í Ástralíu, Kína og Suður-Kóreu.
Marel sinnir viðskiptavinum í yfir 140 löndum, allt frá smærri sérhæfðum framleiðendum og verslunum til stærstu matvælaframleiðenda og verslanakeðja heims. „Vöru- og þjónustuframboð Marels er frá einstökum tækjum eins og skurðarvélum, vigtum og skynjurum til heildarlausna með vél- og hugbúnaði í kjúklinga-, kjöt- og fiskvinnslum. Mikilvægt er að vera nálægt viðskiptavinum með skjóta og góða þjónustu en um 40% of tekjum Marels eru varahluta- og þjónustutekjur. Okkar hlutverk er að tryggja að virðiskeðjan haldist gangandi og að neytendur um allan heim hafi stöðugt aðgengi að matvælum sem eru örugg, hagkvæm og framleidd á sjálfbæran máta,“ segir Árni Oddur.
Til að sinna viðskiptavinum um allan heim hefur Marel eigin sölu- og þjónustuskrifstofur í yfir 30 löndum og leggur mikla áherslu á náið samband við viðskiptavini sína til að skilja strauma, stefnur og þarfir þeirra á hverjum tíma.
Aðspurður segist Árni gera ráð fyrir miklum vexti í Kína á næstu árum. „Við höfum verið að byggja upp starfsemi okkar í Kína í um 20 ár enda tekur langan tíma að komast inn á þann markað. Kínverjar neyta mikils af kjöti og kjúklingi þannig að tækifærin á þessum markaði eru mikil. Heildarneyslan í Kína er jafnmikil og samanlögð neysla neytenda í Evrópusambandslöndunum og Bandaríkjunum, sem eru í dag okkar stærstu markaðssvæði,“ segir Árni Oddur.
Undanfarin ár hefur Marel verið að byggja upp starfsemi sína í Kína til þess að geta skerpt enn frekar á markaðssókn inn á þennan mikilvæga markað. Nauðsynlegt er að hafa heimamenn með í því verkefni og nú er stjórnendateymi Marels í Kína fullskipað heimamönnum sem þekkja markaðinn og þarfirnar vel.
Lestu ítarlegra viðtal við Árna Odd í ViðskiptaMogganum í dag.