Slíkar fjárhæðir hafa ekki sést áður

Árið 2020 var metár í flestu er kemur að lántöku og aldrei hefur jafn mikið verið lánað út og á því ári. Hrein ný útlán, það er ný lán að frádregnum uppgreiðslum, námu 232 milljörðum króna og hefur slík útlánafjárhæð ekki sést áður. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Það dró verulega úr lántökum landsmanna í desember og gæti það verið vísbending um að lánamarkaðurinn sé að róast eftir að hafa verið á miklu flugi á seinni hluta ársins.

„Þessar miklu lántökur má vissulega rekja til mjög hagstæðra vaxta um þessar mundir og hefur það valdið mikilli eftirspurn á fasteignamarkaði, því hafa landsmenn verið bæði duglegir við að kaupa sér fasteignir og endurfjármagna lán sín.

Nú eru vísbendingar uppi um að fasteignamarkaðurinn sé farinn að róast og hafi náð hámarki á haustmánuðum. Að sama skapi hafa vextir á fasteignalánum lítið breyst síðan í nóvember eftir að Seðlabankinn lækkaði vexti nokkuð óvænt um 25 punkta niður í 0,75%.

Greiningaraðilar hafa spáð því að stýrivextir haldist óbreyttir út þetta ár og því ekki að vænta að vextir breytist mikið á næstunni. Nú gæti farið að draga úr þessari gríðarlegu útlánaukningu vegna þess að framboð á markaði hefur dregist hratt saman.

Eftirspurn á fasteignamarkaði er enn mjög mikil og því líklegt að lítið framboð valdi því að dregið hafi úr útlánum. Hins vegar hafa síðustu mánuðir verið metmánuðir í fjölda kaupsamninga miðað við árstíma.

Ef litið er á þróun í útlánum undanfarna mánuði sést að desember var töluvert umsvifaminni en mánuðirnir þar á undan, eins og myndin hér að neðan sýnir, en líklegast er um nokkuð eðlilega árstíðasveiflu að ræða. Hrein ný útlán voru 20 milljarðar í desember samanborið við 22 milljarða í nóvember og 29 milljarða í október og þau hafa ekki verið jafn lág síðan í júní. Þó að dregið hafi aðeins úr lántöku þá voru útlánin í desember samt sem áður sögulega mjög há,“ segir í nýrri skýrslu HMS.

Þessi minnkun í útlánum sést líka glögglega ef útlánin eru skoðuð út frá mismunandi fjármálastofnunum. Bankarnir hafa verið að leiða þessa gríðarlegu útlánaaukningu og hlutur þeirra í fasteignalánum heimilanna stórjókst á árinu 2020, segir enn fremur í skýrslu HMS.

„Útlánavöxtur bankanna hefur að miklu leyti verið á kostnað lífeyrissjóðanna sem komu sterkt inn á útlánamarkaðinn í lok árs 2015 og voru umsvifamiklir á markaði í kjölfarið. Þar hefur orðið viðsnúningur en síðan í júní 2020 hafa uppgreiðslur lífeyrissjóðanna verið mun meiri en ný útlán.

Á meðan hafa útlán bankanna vaxið hratt, útlánin náðu hámarki í október en dregið hefur hratt úr þeim síðan þá og voru hrein ný útlán þeirra ekki nema 32,5 milljarðar í desember. Uppgreiðslur lífeyrissjóðanna voru einnig minni í desember en mánuðina á undan eða 7 milljarðar og á sama tíma var smávægileg aukning í óverðtryggðum lánum milli mánaða. Hjá Íbúðalánasjóði voru uppgreiðslur lána um 5,3 milljarðar sem var aðeins minna en mánuðina á undan.“

Bankarnir hafa verið að bjóða bestu vaxtakjörin á óverðtryggðum lánum og landsmenn hafa í auknum mæli verið að færa sig úr verðtryggðum lánum yfir óverðtryggð. Því hafa verið miklar uppgreiðslur á verðtryggðum lánum síðastliðið ár og stærstur hluti nýrra lána í dag eru óverðtryggð.

Þessi viðsnúningur hefur orðið til þess að hlutdeild óverðtryggðra lána í heildarfasteignaútlánum heimilanna hefur rokið upp á árinu og fór úr því að vera 27,5% í upphafi árs og upp í 42% í desember.

„Því er líklegt að það styttist óðum í að heildarfasteignalán heimilanna verði til jafns verðtryggð og óverðtryggð sem er staða sem landsmenn hafa ekki verið í áður og er það mjög jákvætt að fá meiri fjölbreytni í lánaflóruna hér á landi,“ segir enn fremur í skýrslu HMS.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK