Neikvæð rekstraráhrif dótturfélaganna Valitors, Stakksbergs og Sólbjargs á afkomu samstæðu Arion banka á síðasta ári nema samtals 4,3 milljörðum króna.
Þetta kemur fram í uppgjöri bankans sem var birt í gær.
Þar segir að Valitor hafi á síðasta ári ráðist í umfangsmikla endurkipulagningu og hagræðingaraðgerðir, auk þess sem starfsemin í Danmörku og hluti hennar í Bretlandi hafi verið seld.
Áhrif aðgerðanna hafi skilað nokkrum árangri en rekstrarafkoma Valitors hafði engu að síður neikvæð áhrif á Arion banka sem nam 1,3 milljörðum króna.
„Áfram er Valitor í söluferli en það hefur tekið lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir, m.a. vegna breyttra markaðsaðstæðna tengdum Covid-19. Þrátt fyrir þessa seinkun finnur bankinn áhuga frá ýmsum aðilum á kaupum á Valitor,“ segir í uppgjörinu en í árslok var bókfært virði Valitors 8,5 milljarðar króna.
Neikvæð rekstraráhrif Stakksbergs ehf., sem heldur utan um allar eignir sílikonverksmiðjunnar í Helguvík, námu 1,4 milljörðum króna á árinu 2020 vegna niðurfærslu sílikonverksmiðjunnar. Í lok ársins var bókfært virði Stakksbergs 1,6 milljarðar króna og endurspeglar það einkum verðmæti lóðar og endursöluvirði tækjabúnaðar.
Sólbjarg ehf. heldur utan um eignarhluti Arion banka í ferðaskrifstofum á Norðurlöndum og á Íslandi sem áður heyrðu undir TravelCo.
„Unnið hefur verið að endurskipulagningu rekstrarins á árinu en ferðaþjónustuiðnaðurinn hefur beðið mikla hnekki vegna heimsfaraldursins. Í tengslum við endurskipulagninguna hafa verið seldar einingar út úr rekstrinum, bæði hér heima og erlendis,“ segir í uppgjörinu.
Þar kemur fram að neikvæð rekstraráhrif Sólbjargs hafi numið 1,6 milljörðum króna á síðasta ári. Meginástæða fyrir neikvæðum áhrifum er niðurfærsla á undirliggjandi eignum félagsins. Í árslok var bókfært virði Sólbjargs 0,7 milljarðar króna.