Heildarhagnaður ársins hjá fasteignafélaginu Regin hf. dróst saman um 72% á milli áranna 2019 og 2020. Af ársreikningi félagsins að dæma stafar þetta einkum af hruni í jákvæðri matsbreytingu hjá félaginu á milli ára.
Heildarhagnaður eftir tekjuskatt var 1,274 milljarðar árið 2020 en 4,486 milljarðar árið áður.
Árið 2019 var það bókfært að eignasafn félagsins hefði hækkað um fjóra milljarða króna í virði en árið 2020 hækkaði það aðeins um tæpa 1,5 milljarða.
Á sama tíma hækka fjármagnsgjöld félagsins úr rúmum fimm milljörðum í 6,5.
Leigutekjur félagsins eru þó nánast óbreyttar á milli ára og lækka ekki nema um 1% og hið sama gildir um rekstrarhagnað fyrir matsbreytingu og afskriftir, sem lækkaði aðeins um 5% og var 6,38 milljarðar.
Tekjur Regins eru að hluta til byggðar á ferðatengdri starfsemi og í tilkynningu sem fylgdi ársreikningi félagsins er tekið fram að gert sé ráð fyrir að áhrif kórónuveirufaraldursins á tekjurnar muni vara til 2023-2024.
Eignasafn fasteignafélagsins samanstendur af atvinnuhúsnæði. Í lok árs 2020 átti félagið 115 fasteignir og heildarfermetrafjöldinn var 378 þúsund fermetrar. Félagið er skráð í Kauphöll Íslands.