Hagnaður Landsbankans á árinu 2020 nam 10,5 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 18,2 milljarða króna á árinu 2019. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 4,3% á árinu 2020, samanborið við 7,5% arðsemi árið áður.
Þetta kemur fram í tilkynningu bankans um uppgjör fyrir síðasta ár.
Hreinar vaxtatekjur námu 38,1 milljarði króna árið 2020 samanborið við 39,7 milljarða króna árið á undan. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans námu 7,6 milljörðum króna árið 2020 samanborið við 8,2 milljarða króna á árinu 2019. Aðrar rekstrartekjur voru neikvæðar um 7,5 milljarða króna samanborið við 3,6 milljarða króna á árinu 2019. Lækkunin skýrist einkum af 12 milljarða króna virðisrýrnun fjáreigna samanborið við virðisrýrnun upp á 4,8 milljarða króna árið 2019. Aukna virðisrýrnun fjáreigna má rekja til áhrifa heimsfaraldurs kórónuveirunnar.
Heildarvanskil fyrirtækja og heimila stóðu í stað á milli ára og voru 0,8% af útlánum. Vegna tímabundinna sértækra Covid-19-úrræða mælast 90 daga vanskil minni en ella.
Rekstrartekjur bankans á árinu 2020 námu 38,3 milljörðum króna samanborið við 51,5 milljarða króna árið áður. Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna og skulda nam 2,5% en var 2,8% árið áður.
Rekstrarkostnaður var 25,6 milljarðar króna á árinu 2020 samanborið við 28,2 milljarða króna á árinu 2019. Þar af voru laun og launatengd gjöld 14,8 milljarðar króna, samanborið við 14,5 milljarða króna árið áður. Annar rekstrarkostnaður var 9,1 milljarður króna á árinu 2020 samanborið við 9,5 milljarða króna árið 2019.
Heildareignir Landsbankans jukust um 137,8 milljarða króna á milli ára og námu í árslok 2020 alls 1.564 milljörðum króna. Útlán jukust um 12% milli ára, eða um 133 milljarða króna. Útlánaaukning ársins er aðallega vegna lána til einstaklinga. Í árslok 2020 voru innlán frá viðskiptavinum 793 milljarðar króna, samanborið við 708 milljarða króna í árslok 2019.
Eigið fé Landsbankans í árslok 2020 var 258,3 milljarðar króna samanborið við 247,7 milljarða króna í árslok 2019. Enginn arður var greiddur til hluthafa á árinu 2020. Eiginfjárhlutfall Landsbankans í árslok 2020 var 25,1%, samanborið við 25,8% í árslok 2019. Fjármálaeftirlitið gerir 18,8% heildarkröfu um eiginfjárgrunn Landsbankans.
Bankaráð mun leggja til við aðalfund 24. mars 2021 að greiddur verði arður til hluthafa vegna ársins 2020 sem nemur 0,19 krónum á hlut, eða samtals 4,5 milljörðum króna. Arðgreiðslan samsvarar 43% af hagnaði samstæðunnar á árinu 2020.