Selur 25% hlut í Icelandair Hotels

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Icelandair Group hefur gert samning við Berjaya, eiganda að meirihluta í Icelandair Hotels, um sölu félagsins á 25% eftirstandandi hlut í hótelfélaginu. Söluverðið er um 440 milljónir króna (3,4 milljónir Bandaríkjadala).

Bókfært virði hlutarins er 1,7 milljónir króna (13 þúsund Bandaríkjadalir). Í kjölfar kaupanna mun hótelfélagið hefja vinnu við breytingu á nafni og vörumerki hótelanna og hætta notkun Icelandair-vörumerkisins þegar fram líða stundir.

„Sala á eftirstandandi hlut okkar í Icelandair Hotels er í takt við stefnu Icelandair Group að einbeita okkur að kjarnastarfsemi félagsins, flugrekstri og tengdri starfsemi. Ég vil þakka öllu starfsfólki Icelandair Hotels fyrir samvinnuna í gegnum árin við uppbyggingu hágæðahótela á Íslandi sem hefur verið mikilvægt framlag í að styrkja innviði ferðaþjónustunnar á Íslandi og bæta upplifun ferðamanna,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu.

Hótel Loftleiðir. Söluverðið er um 440 milljónir króna.
Hótel Loftleiðir. Söluverðið er um 440 milljónir króna. mbl.is/RAX

„Ég hef mikla trú á því að Ísland verði áfram eftirsóttur áfangastaður þegar faraldrinum lýkur og að Icelandair Hotels haldi áfram að vera í lykilhlutverki í uppbyggingu ferðaþjónustunnar hér á landi á næstu árum. Ég vil þakka Berjaya fyrir gott samstarf og óska þeim og Icelandair Hotels alls hins besta í framtíðinni.”

Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, segir breytinguna í takt við þau áform sem þegar hafi legið fyrir um aðgreiningu flugs og hótelreksturs samstæðunnar. Hótelin séu því vel undir þetta búin og tilbúin til að takast á við nýja tíma.

„Við búum að góðri þekkingu og reynslu af bæði endurnýjun eldri vörumerkja sem og því að innleiða ný hótelvörumerki inn í okkar rekstur, og sú reynsla mun án efa nýtast okkur vel í þeim verkefnum sem framundan eru. Heimsmyndin er gjörbreytt og ferðaþjónusta um allan heim mun þurfa að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga þá loks að Covid-faraldrinum léttir,“ segir Magnea í tilkynningunni.

„Við höfum nýtt tímann vel undanfarið í endurskipulagningu okkar reksturs sem og til undirbúnings á þeirri vegferð sem lá fyrir að væri framundan. Við hlökkum til aukins samstarfs við nýja eigendur í Malasíu, og erum þakklát öllu því góða fólki sem við höfum unnið með að uppbyggingu ferðaþjónustu hjá Icelandair Group til fjölda ára. Við ætlum áfram að vera leiðandi í hótelrekstri á Íslandi, og það verður spennandi að kynna þær nýjungar sem endurmörkun rekstrarins mun innibera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK