Sjóvá hagnaðist um rúma 5,3 milljarða króna eftir skatta á árinu 2020. Er það hækkun frá fyrra ári þegar félagið hagnaðist um tæpa 3,9 milljarða króna. Þetta kemur fram í uppgjöri félagsins.
Stjórn leggur til að helmingur hagnaðarins, eða 2.650 milljónir króna, verði greiddar út í arð.
Hagnaður af vátryggingastarfsemi félagsins dróst saman og var 1,97 milljarðar króna samanborið við 2,37 milljarða árið áður. Aukinn hagnaður af fjárfestingarstarfsemi bætti hins vegar upp fyrir það og gott betur, en hann var 3,96 milljarðar samanborið við 2,04 milljarða árið áður. Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu var 13,2%.
Haft er eftir Hermanni Björnssyni forstjóra í tilkynningu að afkoma af fjárfestingarstarfsemi hafi verið umfram væntingar, en þær hafi þróast með afar jákvæðum hætti á síðari hluta árs eftir miklar lækkanir vegna óvissu í kjölfar kórónuveirufaraldursins síðasta vor.