Mikill samdráttur einkenndi breskt efnahagslíf í fyrra en samdrátturinn nam 9,9% þrátt fyrir mikinn vöxt á seinni hluta ársins. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu Bretlands.
Fjármálaráðherra Bretlands, Rishi Sunak, segir að hagkerfið hafi tekist á við alvarlegt áfall vegna kórónuveirufaraldursins í fyrra.
Hagvöxturinn mældist 1% á fjórða ársfjórðungi og 16,1% á þeim þriðja. Vonir standa til að ekki verði um nýtt samdráttarskeið að ræða á nýju ári þrátt fyrir harðar sóttvarnareglur sem hafa verið í gildi síðan í janúar.
Englandsbanki spáir því að hagsvöxturinn verði 5% í ár en fyrri spá bankans hljóðaði upp á 7,25% vöxt. Aftur á móti telur bankinn að hagvöxturinn verði 7,25% á næsta ári en fyrri spá hljóðaði upp á 6,25% vöxt.