Aha.is hefur gefið úr nýtt verslunarforrit með raddleit á íslensku. Er þannig hægt að nota röddina við matvöruinnkaup, en notkun forritsins á að vera einfaldari að fara út í búð að sögn framkvæmdastjóra Aha.is.
„Þetta er sannkölluð bylting fyrir okkur sem viljum hafa hlutina einfalda. Nú er hægt að ýta á hnapp í appinu og segja hvað mann vantar og það birtist samstundis á skjánum. Með þessu móti tekur aðeins örfáar sekúndur að finna vörurnar og örfáar mínútur að ganga frá stórri matvörupöntun í símanum sem er magnað,” er haft eftir Helga Má Þórðarsyni, öðrum eiganda Aha.is í tilkynningu.
„Við höfum verið með appið í þróun í 2 ár og lagt mikla vinnu í að gera upplifunina einfaldari en að fara út í búð. Til að slíkt sé mögulegt þarf þó nokkra viðbótarvirkni sem við höfum verið að smíða og er raddleit á íslensku sú fyrsta sem við kynnum,“ segir Maron Kristófersson, framkvæmdastjóri Aha.is.
„Einnig er hægt að nota raddstýringuna til að lesa inn innkaupalista í eldhúsinu og setjast svo í sófann og klára kaupin eftir listanum. Ef innkaupalistinn inniheldur t.d. skyr sýnir appið hvaða tegundir eru í boði í viðkomandi verslun og þú velur það sem hentar.“