Tilnefningarnefnd Icelandair hefur lagt til að stjórn félagsins verði óbreytt, en aðalfundur félagsins fer fram 12. mars þar sem kosið verður um stjórn.
Í stjórninni sitja þau Guðmundur Hafsteinsson, John F. Thomas, Nina Jonsson, Svava Grönfeldt og Úlfar Steindórsson.
Segir í umsögn nefndarinnar að í samtölum við núverandi stjórnarmenn hafi komið fram að samstarfið hafi gengið mjög vel og traust væri mikið á milli stjórnarmanna. Þá hefðu stjórnarmenn víðtækan stuðning stærstu hluthafa. Er það því einróma niðurstaða nefndarinnar að leggja til óbreytta stjórn, jafnvel þótt aðrir hæfir einstaklingar hafi gefið kost á sér í stjórnina við nefndina.