Kostnaður við framleiðslu á viskíi er gríðarlegur. Búnaður, tunnur og nægt rými kostar háar fjárhæðir og það tekur mörg ár að ávaxta fjárfestinguna. Á sama tíma gufar 20% af áfenginu upp.
En vonir standa til þess að hægt verði að einfalda þetta allt saman og það muni aðeins taka nokkra daga að framleiða viskí.
New York Times fjallar um fyrirtækið Bespoken Spirits í vikunni en eigendur þess, Stuart Aaron og Martin Janousek, nota hita og þrýsting til þess að þvinga alkóhól inn í og í gegnum viðarbút sem gefur áfenginu bragð og lit sem fylgir viskíi sem hefur staðið árum saman á tunnum.
Fyrsta framleiðsla Bespoken fór á markað í haust en fyrirtækið er ekki eitt um hituna þar sem tæplega tugur fyrirtækja segist geta hraðað framleiðslunni á viskíi. Sum þeirra hafa hlotið náð fyrir augum fjárfesta, til að mynda Endless West í San Francisco sem hefur fengið tæplega 13 milljónir bandaríkjadala frá fjárfestum frá stofnun fyrirtækisins árið 2015.
Áfengið er misjafnt að gæðum samkvæmt New York Times. Einhver hafa unnið til verðlauna í áfengiskeppnum en margir gagnrýnendur hafa ekki einu sinni litið við þeim. En á sama tíma og sala á viskíi eykst jafnt og þétt er aukin krafa gerð til meira magns á markað. Því eftirspurnin er umfram framboð.
Til þess að bregðast við þessu hafa framleiðendur meðal annars brugðið á það ráð að minnka tunnurnar sem viskíið er látið standa í. Bespoken gengur enn lengra og notar stafla af timbri sem er komið fyrir í stáltanki þar sem gömlu og nýju viskíi er blandað saman. Með því að auka og minnka þrýstinginn á víxl á sama tíma og hitinn er lækkaður í tankinum er viskíið þvingað í gegnum timburstaflann í nokkur skipti.
Ekki er gerð krafa um að allur staflinn sé af sömu viðartegund þannig að þetta gefur möguleika á ólíkum bragðtegundum. Brugghúsið Lost Spirits í Los Angeles hefur farið svipaða leið við framleiðsluna.
Sérfræðingar velta fyrir sér hvort þarna sé komið svar við aukinni spurn eftir viskíi í heiminum og telja að þetta sé ekkert síðra áfengi en 20 ára gamalt viskí.