Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri þrotabús EK 1923, þáði þóknun upp á 170 milljónir króna með virðisaukaskatti fyrir rekstur dómsmála sem mörg hver voru gegn fyrri eiganda EK1923, athafnamanninum Skúla Gunnari Sigfússyni, jafnan kenndum við Subway.
Þetta segir Heiðar Ásberg Atlason, lögmaður Skúla.
Eftir að bú EK1923 var tekið til gjaldþrotaskipta fór Sveinn í samtals sjö mál, en þau hafa mörg verið fyrirferðarmikil í fjölmiðlum undanfarin ár. Stærsta málið var gegn Sjöstjörnunni, félagi Skúla. Skúli vann málið í Landsrétti, en því var síðar snúið í Hæstarétti og var honum því gert að greiða um hálfan milljarð króna.
Nokkrir kröfuhafar þrotabúsins hafa gert athugasemd um hvernig staðið hefur verið að málum EK1923. Einhverjir höfðu jafnframt bent á þóknun skiptastjóra en hún þætti í hærra lagi. Dómari hafði jafnframt skipað Sveini Andra að endurgreiða þóknun sem hann hafði áður greitt sér og sagt að hana ætti að ákveða á skiptafundi.
Aðspurður segir Heiðar skiptastjórann hafa beitt bellibrögðum til að ná sínu fram á skiptafundi. „Sveinn Andri dulbjó auglýsingu í Lögbirtingarblaðið þannig að nafn þrotabúsins kom ekki fram og því bárust engar upplýsingar til lögmanna úr vöktun sem notuð er til að fá allar upplýsingar tengdar því félagi í Lögbirtingarblaðinu,“ segir Heiðar og heldur áfram:
„Það er enginn annar aðili sem beitir svona brögðum, alls staðar kemur fram nafn viðkomandi þrotabús nema hjá honum. Hann vísvitandi blekkti kröfuhafa til að þeir kröfuhafar sem höfðu athugasemdir við þóknun myndu ekki mæta. Til að kóróna þetta þá boðaði hann sérstaklega þá kröfuhafa sem hann vildi fá á skiptafundinn og samþykktu þóknun hans á meðan hann svaraði ekki öðrum.”
Eins og fyrr segir var samþykkt að greiða lögmanninum 170 milljónir króna með virðisaukaskatti. Sjálfur hefur Sveinn Andri sagt að gjaldþrotaskiptameðferðin hafi verið sú „árangursríkasta í sögu íslensks gjaldþrotaréttar“.