Landsvirkjun og Rio Tinto ná samkomulagi

Af hálfu Landsvirkjunar ritaði Hörður Arnarson forstjóri undir, en Rannveig …
Af hálfu Landsvirkjunar ritaði Hörður Arnarson forstjóri undir, en Rannveig Rist forstjóri fyrir hönd Rio Tinto á Íslandi. Viðstödd voru þau Tinna Traustadóttir framkvæmdastjóri Orkusölusviðs, sem leiddi viðræðurnar fyrir hönd Landsvirkjunar, og Sigurður Þór Ásgeirsson, fjármálastjóri Rio Tinto á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Landsvirkjun og Rio Tinto á Íslandi hafa samþykkt viðauka við raforkusamning fyrirtækjanna frá árinu 2010. Samkomulagið rennir styrkari stoðum undir samkeppnishæfni álversins í Straumsvík við áframhaldandi starfsemi þess.

Fram kemur í sameiginlegri tilkynningu, að Landvirkjun og Rio Tinto fagni þessum áfanga, sem styrki rekstrargrundvöll álversins á næstu árum. Þá tryggi samkomulagið fyrirsjáanlegt tekjustreymi Landsvirkjunar og aukinn sveigjanleika í viðskiptunum fyrir báða aðila. Eins og áður kveði samningurinn á um sölu á 390 MW eða 3.415 GWst á ári og gildi til ársins 2036.

„Breyting samningsins er til hagsbóta fyrir báða aðila. Grunnur raforkuverðsins hefur tekið breytingum, en er áfram bundinn Bandaríkjadal og tengdur bandarískri vísitölu neysluverðs (CPI). Að litlum hluta er samningurinn einnig tengdur álverði, sem þýðir aðlögun verðs að alþjóðlegum mörkuðum að einhverju leyti.

Samhliða samkomulaginu hefur Rio Tinto ákveðið að draga til baka kvörtun sína til Samkeppniseftirlitsins frá því í júlí 2020 varðandi orkusölu til álversins í Straumsvík.

Samkomulagið er viðauki við gildandi samning frá 2010. Trúnaðarákvæði þess samnings eru enn í gildi og samningurinn verður því ekki opinberaður að svo stöddu,“ segir í tilkynningunni. 

Niðurstaðan báðum aðilum í hag 

„Við fögnum því að náðst hafi samkomulag um breytingar á orkusölusamningnum, eftir beiðni Rio Tinto þar um. Niðurstaðan er báðum aðilum í hag og um leið eykur hún skilvirkni raforkukerfisins á Íslandi. Markmið Landsvirkjunar er, líkt og áður, að tryggja fyrirsjáanlegar tekjur um leið og við tökum tillit til breytinga á alþjóðlegum mörkuðum og á þörfum viðskiptavina okkar.

Við hjá Landsvirkjun höfum lagt áherslu á að styðja viðskiptavini okkar á þessum krefjandi tímum. Við erum staðráðin í að halda áfram að bjóða samkeppnishæft orkuverð um leið og við sinnum því hlutverki okkar að hámarka verðmæti þeirra endurnýjanlegu orkuauðlinda, sem okkur hefur verið treyst fyrir, til hagsbóta fyrir þjóðina alla,“ er haft eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar. 

Áfram eru krefjandi aðstæður í áliðnaði

„Þetta eru ánægjuleg tíðindi sem eyða óvissu um starfsemina í Straumsvík, um leið og samkeppnishæfni okkar batnar. Við í Straumsvík getum öll verið ákaflega stolt af þeim árangri sem starfsfólk ISAL hefur náð undanfarin ár. Þrátt fyrir margra ára óvissu hefur öll starfsemin einkennst af fagmennsku og æðruleysi og missti starfsfólk ekki sjónar af því sem mestu máli skiptir. Öryggis- og umhverfismálin hafa verið í mjög góðum farvegi, framleiðslan gengið vel og gæði hennar mjög stöðug og mikil. Þótt þessum áfanga sé náð erum við ekki komin fyrir vind. Áfram eru krefjandi aðstæður í áliðnaði og verður ISAL áfram undir pressu að ná árangri. Með þessu samkomulagi um raforkumál getum við hins vegar einbeitt okkur að því að framleiða hágæða ál með þarfir viðskiptavina okkar í huga,“ segir Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka