Festi hf. hagnaðist um 2,5 milljarða króna á síðasta ári og dróst hagnaðurinn saman frá árinu á undan, þegar hagnaðurinn voru 2,8 milljarðar. Reksturinn gekk þó mjög vel þrátt fyrir krefjandi aðstæður, er haft eftir Eggerti Þór Kristóferssyni, forstjóra hlutafélagsins.
Innan samstæðunnar eru meðal annars Krónan, N1 og Elko. Í ársreikningi segir að heildartekjur Krónunnar hafi numið 43 milljörðum króna í fyrra og þannig aukist um 18,3% á milli ára. Hagnaðurinn nam 900 milljónum, samanborið við 740 milljónir árið á undan.
Hagnaður N1 dregst verulega saman aftur á móti, og nemur 220 milljónum, samanborið við 596 milljónir árið áður. Það stafar meðal annars af miklum tekjusamdrætti, sem nam átta milljörðum. „N1 fann mikið fyrir minni umferð og algjöru hruni í ferðaþjónustunni en þá kom sér vel að þjónustusvæði félagsins er sterkt um allt land og í öllum atvinnugreinum,“ er haft eftir Eggerti Þór í tilkynningu.
ELKO átti þá sitt besta ár frá upphafi þrátt fyrir mjög minnkuð umsvif í Fríhöfninni vegna heimsfaraldurs Covid-19. Hagnaðurinn nam 543 milljónum samanborið við 244 milljónir árið áður.