Farþegar sem lenda á Keflavíkurflugvelli með flugi frá Varsjá í nótt eiga þess kost að kaupa sér far með flugrútu heim til Reykjavíkur. Það er breyting frá því sem verið hefur frá 16. janúar, þar sem rútuferðir hafa legið niðri.
Orsök þess hefur verið sú að Kynnisferðir hefur ekki talið grundvöll fyrir því að bjóða upp á ferðir á meðan aðeins var leyfilegt að helmingur hámarksfjölda farþega sæti í rútunni í einu.
Að sögn Björns Ragnarssonar framkvæmdastjóra fyrirtækisins hafði samtal við Samgöngustofu þau áhrif reglugerðin var rýmkuð, þannig að nú er hægt að fylla rúturnar svo að ferðirnar borgi sig.
Björn gleðst yfir því að hægt sé að bjóða upp á ferðir með rútunni á ný og verður það gert með einni rútu á hverja flugvél sem lendir. Enn er ekki hægt að taka rútu út á völl.