Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samruna Kviku og TM. Jafnframt tilkynnti Fjármálaeftirlitið Kviku þá niðurstöðu sína að eftirlitið teldi félagið hæft til að fara með eignarhald á virkum eignarhlut í TM tryggingum hf., TM líftryggingum hf. og Íslenskri endurtryggingu hf.
Þetta kemur fram í tilkynningu Kviku til Kauphallarinnar.
Með samruna Kviku og TM verður til stórt fjármálafyrirtæki með efnahagsreikning sem getur þjónað stærri viðskiptavinum en fyrrnefnda fyrirtækið hefur verið í færum til fram til þessa.
Þetta kom fram í samtali ViðskiptaMoggans við Marinó Örn Tryggvason, forstjóra Kviku, í desember síðastliðnum.
Sameiningin feli í sér náttúrulega áhættudreifingu sem muni styðja við hagstæða fjármögnun félagsins til frambúðar.
Lykill fjármögnun hluti af sameiningunni
Stjórnir Kviku banka, TM og Lykils fjármögnunar samþykktu 25. nóvember að sameina félögin.
Fjallað var um málið á mbl.is.
„Verða félögin sameinuð undir merkjum Kviku, en TM mun færa vátryggingastarfsemi sína í nýtt félag, TM tryggingar hf., og verður það dótturfélag sameinaðs félags.
Marinó Örn Tryggvason verður forstjóri Kviku og Sigurður Viðarsson verður forstjóri TM trygginga. Fjármála- og rekstrarsviði Kviku verður skipt upp í tvö svið eftir samrunann; Ragnar Páll Dyer mun gegna starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs og Ólöf Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Lykils, mun hefja störf hjá Kviku og gegna starfi framkvæmdastjóra rekstrar- og þróunarsviðs.“