Um 1.400 rekstraraðilar hafa fengið um 7,8 milljarða króna greidda í tekjufallsstyrki vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Tekjufallsstyrkir nýtast rekstraraðilum sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli í heimsfaraldrinum og er markmiðið að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja þau fyrirtæki og einyrkja þar sem tekjufall er meira en 40%.
Þetta kemur fram á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
„Alls hafa tugir milljarða verið greiddir í fjölbreyttan stuðning í úrræðum ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins sem eru á annan tug talsins – styrkir, lán, gjaldfrestir og annað – sem á fjórða tug rekstraraðila og tugþúsundir einstaklinga hafa nýtt sér,“ kemur fram á vef ráðuneytisins.
Þar segir enn fremur að yfirgnæfandi meirihluti fyrirtækja sem nýtti sér úrræði stjórnvalda vegna faraldursins í fyrra var með tíu launamenn eða færri. Það hafi verið um 82% þeirra sem nýttu sér úrræðin eða alls rúmlega 2.500 fyrirtæki.
Nánar má sjá um efnahagsgerðir vegna Covid-19 hér.