Um 150 starfsmenn Arion banka og dótturfélaga hans keyptu 48,5% af heildarútgáfu áskriftarréttinda að nýjum hlutum í bankanum.
Um 51% af útgáfunni voru seld til fagfjárfesta, að því er kemur fram í tilkynningu frá Arion banka.
Áskriftarréttindin voru boðin til sölu í lokuðu útboði sem fór fram 25. og 26. febrúar og höfðu Íslensk verðbréf hf. umsjón með útboðinu.
Byggt á tilboðum fjárfesta í útboðinu ákvað stjórn bankans að gefa út 54 milljónir áskriftarréttinda þar sem 15,6 krónur eru greiddar fyrir hvern áskriftarrétt. Heildarsöluverð í útboðinu er því 842.400.000 krónur. Útgáfan nemur um 3% af heildarhlutafé bankans.
Fagfjárfestum sem eru virkir á hlutabréfamarkaði, öllu starfsfólki bankans og Stefnis hf. og lykilstarfsfólki annarra dótturfélaga bankans bauðst að taka þátt í útboðinu.
Útgáfa áskriftarréttindanna byggir á heimild stjórnar frá hluthafafundi bankans í mars í fyrra.
Heimilt er að nýta áskriftaréttindin fjórum sinnum, í 30 daga gluggum; í kjölfar birtingar á uppgjöri þriðja ársfjórðungs 2023, ársuppgjöri fyrir 2023, og uppgjörum fyrsta og annars ársfjórðungs 2024.