Bankastjóri og aðstoðarbankastjóri Arion banka eru á meðal þeirra sem keyptu áskriftarréttindi að nýjum hlutum í bankanum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka um viðskipti fruminnherja/fjárhagslegra tengdra aðila í tengslum við útgáfu áskriftarréttindanna.
Alls keyptu um 150 starfsmenn Arion banka og dótturfélaga 48,5% af heildarútgáfu áskriftarréttinda að nýjum hlutum í bankanum.
Í tilkynningunni eru tilgreindir átta háttsettir starfsmenn Arion banka, þar á meðal Benedikt Gíslason bankastjóri og Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason aðstoðarbankastjóri. Eftir viðskiptin á hvor þeirra áskriftarréttindi að 961.538 hlutum en hver þeirra kostar 15,6 krónur, sem gerir tæpar 15 milljónir króna.