Þorvaldur Þorláksson rekstrarfræðingur hefur verið ráðinn forstöðumaður fasteigna og þróunar hjá Högum og hefur nú þegar hafið störf. Hann mun bera ábyrgð á rekstri fasteigna og lóða í eigu Haga, hafa umsjón með leigumálum samstæðunnar og fasteignaþróun.
Þorvaldur hefur mikla reynslu af rekstri, stýringu og uppbyggingu fasteignaverkefna, m.a. við uppbyggingu og rekstur Smáralindar, Turnsins í Kópavogi, Smáratorgs, Glerártorgs auk fleiri verkefna segir í tilkynningu.
Nú síðast starfaði Þorvaldur sem framkvæmdastjóri Stjörnunnar ehf. sem rekur Subway á Íslandi. Hann hefur einnig starfað hjá Origo og Nýherja, þar sem hann var framkvæmdastjóri Heildsölu og dreifingar.
„Þorvaldur hefur dýrmæta reynslu af rekstri og uppbyggingu fasteignaverkefna. Fasteignaumsvif Haga eru umtalsverð og sífelld áskorun að tryggja að fjárfestingar séu í takt við þarfir félagsins og viðskiptavina hverju sinni. Reynsla Þorvaldar mun nýtast Högum vel í verkefnum sem framundan eru og við bjóðum hann sérstaklega velkominn í hópinn,“ er haft eftir Finni Oddssyni, forstjóra Haga, í tilkynningu.