„Hugmyndin um að birta verðsögu á öllum okkar vörum hefur blundað í okkur lengi en vegna tæknilegra mála höfum við ekki getað farið í verkefnið fyrr en nú,“ segir Bragi Þór Antoníusson sem stýrir stafrænni þróun hjá raftækjaversluninni Elko.
Fyrirtækið kynnti nú á dögunum nýjung sem felur í sér birtingu á verðsögu allra vara á elko.is. Þannig geta viðskiptavinir séð hvernig verð á vörum hefur þróast í gegnum árin en með þessu verður gagnsæi gagnvart neytendum aukið til muna.
Gögnin eru sett fram á vöruspjaldi hverrar vöru á þann hátt að viðskiptavinir eiga auðvelt með að lesa úr þeim. Verðsagan er birt á grafi þar sem sjá má auglýst verð vöru við lok dags ásamt því að tilboðsverð vöru á gefnu tímabili er sérstaklega merkt inn á grafið.
„Við finnum vel fyrir því að viðskiptavinir okkar eru ávallt á tánum varðandi réttindi sín og ósjaldan skapast þarfar umræður um verðbreytingar á einstökum vörum. Þessi umræða er yfirleitt hvað hæst í kringum útsölur eða aðra tilboðsdaga þegar mikið er pantað inn af nýjum vörum og verðbreytingar eru örar,“ segir Arinbjörn Hauksson, markaðsstjóri Elko.
Hann heldur áfram: „Við vöndum okkur því gríðarlega við verðlagningu og kappkostum við að bjóða þekkt vörumerki á lágu verði þar sem tilboð eru auglýst á heiðarlegan hátt.“