Í tilefni alþjóðadags kvenna hvetja Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Theresa Bercich, gagnasérfræðingur hjá nýsköpunarfyrirtækinu Lucinity, konur sem starfa í ríkisstjórn, í fjármálakerfinu sem og í fjölmiðlum til að binda enda á tveggja milljarða dala peningaþvætti í gegnum fjármálakerfið á ári hverju.
Fram kemur í tilkynningu að peningaþvættið hafi hlutfallslega mun meiri áhrif á konur með fjármögnun skipulagðrar glæpastarfsemi tengdri mansali og kynlífsþrælkun. Samkvæmt UN Women eru konur 72% fórnarlamba mansals og kynlífsþrælkunar.
„Make Money Good-framtakið hvetur konur í valdastöðum í fjármálageiranum til að beita sér fyrir auknu gagnsæi og notkun nýrrar tækni gegn peningaþvætti. Framtakið miðar að því að koma af stað miðlun upplýsinga milli landa og notkun gervigreindarhugbúnaðar til að verða betri í að rekja uppruna þessara hræðilegu glæpa,“ segir í tilkynningunni.
Þar kemur fram að eftir að Ísland var sett á gráan lista FATF árið 2019 hafi Áslaug Arna tekið mikilvæg skref til að koma landinu af listanum og kynnt úrbætur gegn peningaþvætti.
„Konur um allan heim geta verið hvati þess að bankar séu opnari og gegnsærri gagnvart viðskiptavinum sínum til að ýta hlutunum áfram. „Er verið að nota peningana mína til að fjármagna skipulagða glæpastarfsemi?“ „Er ég ósjálfrátt að styðja þessa hræðilegu glæpi gegn konum?“ Áskorun getur leitt til breytinga og allir geta tekið þátt,“ segir Áslaug Arna í tilkynningunni.