Í gær kom í ljós að vonir nokkurra frambjóðenda til stjórnar Icelandair Group, um margfeldiskosningu í stjórnarkjörinu á aðalfundi félagsins á föstudaginn næsta, hefðu brugðist. Margfeldiskosning er talin hafa getað aukið til muna möguleika þeirra frambjóðenda sem tilnefningarnefnd félagsins mælti ekki með í stjórnina.
Sturla Ómarsson, sem er einn þessara frambjóðenda, segir spurður um mat á stöðunni eftir að í ljós kom að margfeldiskosning yrði ekki viðhöfð að væntanlega yrði erfiðara fyrir nýja aðila að komast inn. „Það er samt möguleiki. Þar sem það eru ekki fleiri en 53% sem ætla að mæta á fundinn, þá í samhengi allra hluta þarftu minna,“ segir Sturla, og telur möguleika sína ennþá góða. „Ég tel fullt tilefni til að einstaklingur sem hefur djúpa þekkingu á málefnum félagsins setjist í stjórn. Það eru spennandi tímar framundan, en erfiðir,“ segir Sturla.