Kaupa meirihluta í Creditinfo

Höfuðstöðvar Creditinfo á Íslandi.
Höfuðstöðvar Creditinfo á Íslandi. mvl.is/Ernir Eyjólfsson

Framtakssjóðurinn Levine Leichtman Capital Partners (LLCP) hefur keypt meirihluta hlutafjár Creditinfo Group, móðurfélags Creditinfo á Íslandi. Stjórnendahópur og stefna Creditinfo á Íslandi verður óbreytt eftir kaupin að því er fram kemur í tilkynningu.

Creditinfo var stofnað árið 1997, en hjá félaginu starfa í dag rúmlega 400 manns í yfir 30 starfsstöðvum víða um heim. Í tilkynningunni kemur fram að LLCP muni halda áfram að styðja við áframhaldandi vöxt og starfsemi Creditinfo Group á alþjóðavettvangi.

Reynir Grétarsson, stofnandi Creditinfo, mun áfram sitja í stjórn félagsins, en hann verður jafnframt annar stærsti hluthafi félagsins. Paul Randall, sem gekk til liðs við Creditinfo árið 2007, leiðir fyrirtækið í næsta vaxtarfasa sem nýráðinn forstjóri samstæðunnar.

Paul Randall, nýr forstjóri samstæðunnar Creditinfo group.
Paul Randall, nýr forstjóri samstæðunnar Creditinfo group. Ljósmynd/Aðsend

„Með aðkomu nýs, reynslumikils og kröftugs fjárfestis, sem styður við markaðssókn og vöxt fyrirtækisins, verður mögulegt að styrkja enn frekar vöruframboð okkar á sviði áhættugreiningar og fjártækni,“ er haft eftir Randall í tilkynningunni, en hann segir umtalsverða vaxtarmöguleika til framtíðar í rekstri félagsins.

Brynja Baldursdóttir verður áfram framkvæmdastjóri Creditinfo, en í tilkynningunni segir hún að aðkoma öflugs fjárfestis sé bakland til að efla enn frekar vöruframboð fyrirtækisins.

Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo.
Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo. Ljósmynd/Aðsend

Eignir í stýringu hjá LLCP nema nú um 7,8 milljörðum dala, þar með talið í nýjasta flaggskipssjóði LLCP, Levine Leichtman Capital Partners VI, LP, sem hafði, í árslok 2018, fjárfest fyrir 2,5 milljarða dala og nýjasta sjóði í Evrópu, Levine Leichtman Capital Partners Europe II SCSp, sem hafði fjárfest fyrir 463 milljónir evra í árslok 2020. Skrifstofur eru í Los Angeles, New York, Chicago, Charlotte, Miami , London, Stokkhólmi og Haag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK