Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur hækkað hagvaxtarspá sína umtalsvert fyrir árið í ár. Helstu ástæður hækkunarinnar er dreifing bóluefnis við Covid-19 og viðamiklar efnahagsaðgerðir bandarískra stjórnvalda sem kynntar voru nýverið.
OECD gerir nú ráð fyrir 5,6% hagvexti í ár sem er 1,4 prósenta aukning frá fyrri spá en hún var birt í desember.
Yfirhagfræðingur OECD, Laurence Boone, segir að batinn í heiminum byggi fyrst og fremst á aðgerðum ríkisstjórnar Joes Bidens, forseta Bandaríkjanna, sem miða að því að setja 1.900 milljarða bandaríkjadala inn í efnahagslífið.
Samkvæmt OECD verður hagvöxturinn í Bandaríkjunum 6,5% í ár sem er aukning um 3,3 prósent frá fyrri spá.