Kaupverð bandaríska framtakssjóðsins Levine Leichtman Capital Partners (LLCP) á meirihluta hlutafjár Creditinfo Group, móðurfélags Creditinfo á Íslandi, samsvarar því að íslenska félagið sé verðmetið á allt að 30 milljarða króna, samkvæmt heimildum Markaðarins, fylgiblaðs Fréttablaðsins.
Kaupverðið er trúnaðarmál en samkvæmt heimildum Markaðarins miðar það við að fyrirtækið sé í heild sinni metið á 20-30 milljarða króna – endanleg fjárhæð veltur á ákveðnum fjárhagslegum markmiðum – og má því ætla að virði hlutarins sem Reynir selur sé allt að 10 milljarðar segir í Fréttablaðinu í dag.
Creditinfo var stofnað árið 1997, en hjá félaginu starfa í dag rúmlega 400 manns í yfir 30 starfsstöðvum víða um heim. Í tilkynningunni kemur fram að LLCP muni halda áfram að styðja við áframhaldandi vöxt og starfsemi Creditinfo Group á alþjóðavettvangi.
Reynir Grétarsson, stofnandi Creditinfo, mun áfram sitja í stjórn félagsins, en hann verður jafnframt annar stærsti hluthafi félagsins. Paul Randall, sem gekk til liðs við Creditinfo árið 2007, leiðir fyrirtækið í næsta vaxtarfasa sem nýráðinn forstjóri samstæðunnar.