Icelandair Group skrifaði í dag undir samning um sölu og endurleigu á tveimur Boeing 767-300ER farþegaflugvélum við bandaríska flugvéluleigusalann Titan Aircraft Investments, en vélunum verður síðar breytt í fraktvélar, að því er félagið greinir frá í tilkynningu.
Vélarnar verða fyrst um sinn nýttar í farþegaflugi hjá Icelandair og í leiguflugi hjá Loftleiðum en verður breytt í fraktvélar vorið 2022 og teknar í rekstur hjá Icelandair Cargo haustið 2022. Þeim er ætlað að leysa af hólmi eldri fraktvélar félagsins en félagið áætlar að taka tvær Boeing 757-200 fraktvélar sínar úr rekstri 2023 og 2024. Samningurinn er til 10 ára og hefur jákvæð áhrif á lausafjárstöðu Icelandair Group, segir ennfremur.
„Félagið mun áfram leggja áherslu á að nýta farþegaleiðakerfi Icelandair fyrir fraktflutninga og þannig bjóða þjónustu á fjölmarga áfangastaði beggja vegna Atlantshafsins, til viðbótar því að sækja á markaði með þessum nýju sérútbúnu Boeing 767-300 breiðþotum,“ segir í tilkynningunni.
„Við sjáum mikil tækifæri til sóknar í fraktflutningum á okkar helstu mörkuðum með því að bæta þessum öflugu fraktvélum við flotann okkar. Um er að ræða tvær Boeing 767 breiðþotur sem bera hvor um sig rúmlega 50% meira af frakt en núverandi floti okkar og henta vel inn í leiðakerfi félagsins.
Fraktflutningar hafi gengið vel undanfarið ár þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn og horfur eru áfram góðar. Útlit er fyrir að verkefnum hér á Íslandi muni fjölga og við sjáum jafnframt tækifæri í því að styrkja Ísland sem tengimiðstöð fyrir fraktflutninga milli heimsálfa, á svipaðan hátt og við höfum gert í farþegaflugi Icelandair í áratugi,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu.
„Við teljum að það verði mikil eftirspurn eftir fraktflugi á Atlantshafsmarkaðinum, bæði til skemmri og lengri tíma, sem við ætlum að sinna. Breiðþoturnar auka sveigjanleika félagsins og munu gera okkur kleift að sækja fram á þessum markaði á hagkvæmari hátt en áður, efla þjónustu við viðskiptavini okkar og starfsemi Icelandair Cargo til framtíðar,“ segir Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo, í tilkynningu.