Stórar og verðmætar lóðir eru til leigu í Vatnsmýrinni í vesturbæ Reykjavíkur, þar sem enn er nokkuð mikið laust pláss þrátt fyrir mikla uppbyggingu undanfarin ár.
Ekkert liggur fyrir um hvað mun rísa á gríðarstórri lóð á milli Grósku og höfuðstöðva Alvotech, en stjórnarformaður Vísindagarða ehf. segir að verið sé að leita að viðeigandi aðilum til að leigja lóðina.
Lóðin er í eigu Vísindagarða, sem er hlutafélag í 95% eigu Háskóla Íslands og 5% eigu Reykjavíkurborgar. Fyrst voru áform um að menntavísindasvið gæti fengið húsnæði á lóðinni, en á þessu augnabliki er Háskóli Íslands fremur að líta til Bændahallarinnar í þeim efnum. Því má segja að plássið losni á lóðinni.
Í stefnu Vísindagarða ehf. er miðað við að lóðirnar skuli fara til fyrirtækja í upplýsingatækni, líftækni og endurnýjanlegri orku. Þegar hafa CCP og fleiri þekkingarfyrirtæki hreiðrað um sig í „hugmyndahúsinu“ Grósku og líftæknilyfjarisinn Alvotech er með höfuðstöðvar á svæðinu sömuleiðis.
Af sviðunum þremur stendur því starfsemi með endurnýjanlega orku út af. „Við erum komin lengst á hinum sviðunum tveimur en styst á sviði endurnýjanlegrar orku,“ segir Sigurður Magnús Garðarsson, stjórnarformaður Vísindagarða ehf. og prófessor við Háskóla Íslands.
Sigurður segir engar formlegar viðræður í gangi við aðila á því sviði en að verið sé að reyna að fá þá að borðinu. „Við viljum gjarnan laða til okkar sterka aðila sem hefðu hag af því að vera nærri háskólanum og háskólinn hefði hag af því að vera nálægt þeim. Það er auðvitað því fyrr því betra en við erum þó ekki undir neinni pressu,“ segir Sigurður.
Ósk stjórnar Vísindagarða er sem sagt að fá stöndugt orkufyrirtæki á staðinn. Hvaða orkufyrirtæki það yrði er ekki gott að segja, en vissulega koma ekki mörg til greina.
Stöndugur er lykilorð í þessu samhengi enda ljóst að leigan er dýr. Félag Björgólfs Thors Björgólfssonar fjárfestis, sem byggði og rekur Grósku, greiðir 100 milljónir króna á ári fyrir leiguna á lóðinni. Leigusamningurinn er til margra áratuga, þannig að skuldbindingin er veruleg.
Gárungarnir gætu bent á að aðilinn sem kæmi á milli Grósku og Alvotech tæki sannarlega að sér hlutverk milligöngumanns, þar sem hann kæmi á milli þeirra Björgólfs Thors og Róberts Wessman, eiganda Alvotech.
Tvímenningarnir voru nánir viðskiptafélagar í upphafi aldar, fyrst og fremst undir merkjum lyfjafyrirtækisins Actavis. Svo kastaðist í kekki milli þeirra og síðan hafa málsóknir gengið á víxl. Sem stendur eru þeir nágrannar með bert á milli. Verst er að ekki standi til að reisa stúdentagarð á lóðinni, enda forn sannindi að garður er granna sættir.