Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest með úrskurði sínum ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að ógilda samruna Íslenskrar myndgreiningar ehf. og Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf.
Þetta kemur fram á vef Samkeppniseftirlitsins.
Samkeppniseftirlitið ógilti samrunann í ágúst á síðasta ári, meðal annars vegna þess að með samrunanum hefði keppinautum á markaði fyrir myndgreiningu utan sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu fækkað úr þremur í tvo, með alvarlegum, skaðlegum áhrifum fyrir bæði greiðendur og notendur þjónustunnar.
Áfrýjunarnefndin var á sama máli og í úrskurðinum kemur fram að samanlögð markaðshlutdeild hefði orðið á bilinu 80 til 100% eftir þjónustuþáttum.
Myndgreiningar ehf., hafði áformað að festa kaup á Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. og Íslenskri myndgreiningu ehf. Félögin sinna læknisfræðilegri myndgreiningarþjónustu, þ. á m. tölvusneiðrannsóknum, röntgenrannsóknum, ómun, segulómun og skyggnirannsóknum.