Hagnaður Orkuveitu Reykjavíkur á síðasta ári nam 5,6 milljörðum króna, en var árið áður 6,9 milljarðar. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) batnaði um 1,3 milljarða milli ára og var 29,5 milljarðar í fyrra samanborið við 28,2 milljarða árið 2019. Þegar afskriftir hafa verið teknar með var rekstrarhagnaður fyrirtækisins í fyrra einnig betri en árið á undan, eða upp á 16,4 milljarða á móti 16,05 milljörðum árið á undan.
Helsti áhrifavaldur á lægri hagnað milli ára er liðurinn „Önnur gjöld af fjáreignum og fjárskuldum“ en hann var upp á 3,5 milljarða, en var 2 milljarðar árið 2019. Gengismunur hefur þar mest áhrif, en hann var neikvæður upp á 4,6 milljarða í fyrra á móti 950 milljónum árið áður.
Rekstrartekjur félagsins námu 48,6 milljörðum í fyrra og hækkuðu um rúmlega tvo milljarða milli ára. Rekstrargjöld námu 19,2 milljörðum og hækkuðu um tæplega 800 milljónir. Í tilkynningu vegna uppgjörsins kemur fram að tekjur hafi aðallega aukist vegna aukinnar sölu á heitu vatni, en 10% vöxtur varð í heitavatnsnotkun milli ára. Ástæða vaxtarins er sögð köld tíð og fjölgun húsa sem eru tengd hitaveitu, en í tilkynningunni er þetta sögð „fáheyrð aukning á einu ári“.
Í samstæðu OR eru, auk móðurfélagsins; Veitur, Orka náttúrunnar, Gagnaveita Reykjavíkur, sem rekur Ljósleiðarann, og nú í fyrsta skipti Carbfix, nýtt þróunarfélag um lausnir í loftslagsmálum.
Haft er eftir Bjarna Bjarnasyni, forstjóra Orkuveitunnar, í tilkynningunni að reksturinn sé traustur og að dregið hafi úr ábyrgðum sveitarfélaganna, sem eiga Orkuveituna, á lánum hennar. Þannig hafa slík lán minnkað úr rúmum 90% niður í 46% og að stefnt sé að því að hætta alveg lántöku með slíkum ábyrgðum. Þá tekur hann fram að neyðarlán upp á 12 milljarða sem eigendur veittu árið 2011 sé nú fullgreitt.
Fjárfestingar Orkuveitunnar á síðasta ári námu 16,8 milljörðum, en voru 19,4 milljarðar árið 2019. Fram kemur að undirbúningur ýmissa framkvæmda hafi tafist í fyrra sem megi að einhverju leyti skrifa á faraldurinn. Á þessu ári er gert ráð fyrir auknum fjárfestingum, meðal annars útskiptingu á 160 þúsund mælum fyrir hita-, vatns- og rafveitu. Verður hefðbundnum mælum skipt út fyrir snjallmæla. Þá styttist í að endurbygging vesturhúss Orkuveitunnar við Bæjarháls hefjist.
Í ársskýrslu félagsins kemur fram að stjórn Orkuveitunnar leggi til við aðalfund að greiddur verði út arður upp á 4 milljarða á árinu 2021. Stærsti hluthafi fyrirtækisins er Reykjavíkurborg með 93,5% hlut. Akraneskaupstaður á 5,5% og Borgarbyggð tæplega 1%.