Stjórn Íslandspósts gagnrýndi Birgi Jónsson, fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins, fyrir að fara gegn samþykktum við lækkun gjaldskrár. Þetta kemur fram í fundargerð stjórnarinnar 7. desember 2020 sem Morgunblaðið hefur undir höndum.
„Ákvarðanir um taxtalækkun póstsendinga um áramótin 2019/2020 og hækkun í ágúst sl. voru ekki bornar undir stjórn og staðfestar í fundargerð í samræmi við samþykktir félagsins. Forstjóri félagsins bar fulla ábyrgð á þessum ákvörðunum. Stjórn harmar þessa málsmeðferð og er sammála um að eftirleiðis verði þess gætt að upplýsingagjöf og form ákvörðunartöku séu í samræmi við samþykktir félagsins,“ sagði þar m.a. Til upprifjunar varðar málið þá breytingu að miða við eitt gjaldsvæði en ekki fjögur í innlendum pakkasendingum upp að 10 kg. Hafði það í för með sér að verð úti á landi lækkaði mikið.
Hafa Samtök verslunar og þjónustu sakað Póstinn um að niðurgreiða þannig þjónustuna og með því grafa undan samkeppninni.
Athygli vekur að sama dag og Pósturinn tilkynnti Póst- og fjarskiptastofnun um lækkunina – hinn 16. desember 2019 – undirritaði fyrrverandi forstjóri samþykktir fyrir Íslandspóst ohf. Kváðu þær meðal annars á um skyldustörf stjórnar en meðal þeirra var að setja gjaldskrá fyrir félagið í samræmi við lög.
Þá kemur fram í fundargerð 30. nóvember sl. að Thomas Möller stjórnarmaður fór fram á að fá greiningu á öllum breytingum á gjaldskrá og ítrekaði að þær skyldu lagðar fyrir stjórn. Thomasi var vikið úr stjórn á síðasta aðalfundi, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.