Segir bókun stjórnar hvítþvott

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Heldur þú að ég hafi sem forstjóri ákveðið upp á mitt einsdæmi að lækka tekjur fyrirtækisins um fleiri hundruð milljónir bara af því að ég var í stuði einn daginn?“ segir Birgir Jónson, fyrrverandi forstjóri Íslandspósts, í samtali við mbl.is. 

Hann segir fullyrðingar í fundargerð stjórnar Íslandspósts, dagsettri 7. desember 2020, þess efnis að hann hafi ekki borið verðbreytingar á póstþjónustu undir stjórn fyrirtækisins barnalegar í besta falli.  „Það var mikil umfjöllun um þetta tiltekna atriði í aðdraganda þessara breytingar [ný lög um póstþjónustu]. Meðal annars liggja fyrir minnisblöð frá fjármálaráðuneytinu til fjárlaganefndar þar sem kemur í ljós að vegna þessa ákvæðis þá muni verð höfuðborgarsvæðisins ráða. Það lá fyrir að kostnaður ríkisins við alþjónustu myndi rjúka upp um allavega 150 milljónir.“

Fundargerðir þess eðlis að hægt sé að neita fyrir vitneskju

„Pólitískar stjórnir þessara opinberu hlutafélaga, sem vinna þannig að fundargerðir, sem þær vita að koma til fjölmiðla og til almennings í krafti upplýsingalaga, eru gerðar svo þunnar að þær geta alltaf þegar pólitískir hagsmunir henta þeim sagt að þær hafi ekki vitað af málinu,“ segir Birgir.

Hann bætir því við að alvanalegt sé að þriggja klukkutíma fundur með 80 til 90 blaðsíðna glærupakka skilji eftir sig einnar blaðsíðu fundargerð í punktaformi.

„Og koma núna ári seinna, og ég er búinn að segja upp, á að fara að hvítþvo sig núna með að ég hafi ekki komið með þessar upplýsingar fyrir stjórn. Þetta er varla svaravert,“ segir Birgir.

„Ef halda á fram að ég hafi ekki kynnt þessar upplýsingar fyrir stjórn þá er þetta annað af tvennu; að þessir tilteknu stjórnarmenn sem ætla að væna mig um þetta hafa bara hreinlega ekki lesið gögnin og sett sig inn í þetta. Eða að stjórnin sé hreinlega að þvo af sér ákvarðanatöku sem var óumflýjanleg.“

Hvernig voru samskipti þín við stjórnina?

„Þau voru bara ágæt þangað til að ég áttaði mig á því að það eru flokkspólitískir hagsmunir, sem koma inn í ákveðnar ákvarðanir hjá ákveðnum flokkum, sem ráða og það samræmist ekki hugmyndum um opinber hlutafélög eins og ég lít á þau, að þau séu rekin á sem besta og hagkvæmasta máta,“ segir Birgir. Hann segir samstarfsörðugleika hafa fylgt eftir þann vendipunkt og eftir að ágallar nýrra póstlaga komu í ljós. 

Íhugar að leita réttar síns

Birgir segir að bókun sem kom fram í fundargerð í desember, og vitað væri að kæmi í fjölmiðlum, vegi að starfsheiðri hans og hann beinlínis sakaður um umboðssvik. Hafi þetta verið raunin hefði augljóslega átt að víkja honum úr starfi. Hann segist nú íhuga að leita réttar síns enda liggi fyrir gögn sem hreki fullyrðingarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK