Leggja til lægri stjórnarlaun en stjórnin

Þriðji stærsti hluthafi Arion banka leggur til óbreytt stjórnarlaun.
Þriðji stærsti hluthafi Arion banka leggur til óbreytt stjórnarlaun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lífeyrissjóður verslunarmanna, sem er þriðji stærsti hluthafi Arion banka með 8,45% hlut, hefur lagt fram breytingartillögu við fyrirliggjandi tillögur á aðalfundi bankans sem haldinn verður á morgun, 16. mars.

Leggur sjóðurinn til að stjórnarlaun á vettvangi bankans haldist óbreytt frá síðasta aðalfundi. Þannig verði laun stjórnarmanna 490.900 krónur, mánaðarlaun varaformanns stjórnar 736.200 krónur og mánaðarlaun stjórnarformanns verði 981.400 krónur.

Tillaga stjórnar felur í sér að stjórnarformaður bankans fái 1.200 …
Tillaga stjórnar felur í sér að stjórnarformaður bankans fái 1.200 þúsund krónur í mánaðarlaun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í fyrrnefndum tillögum sem núverandi stjórn bankans leggur fyrir aðalfund til samþykktar eða synjunar er gert ráð fyrir talsverðri hækkun stjórnarlauna. Þannig er tillaga gerð um að stjórnarlaun hækki í 600 þúsund krónur, laun varaformanns hækki í 900 þúsund og laun stjórnarformanns verði 1.200 þúsund krónur. Jafngildir það hækkun um ríflega 22%.

Auk þess leggur sjóðurinn til að varastjórnarmenn skuli ekki fá greiddar 600 þúsund krónur fyrir hvern setinn stjórnarfund eins og tillögur stjórnar gera ráð fyrir heldur 248.600 krónur. Hins vegar geti varastjórnarmaður fengið allt að 490.900 krónur fyrir framlag sitt á mánuði ef fundir eru fleiri en einn. Tillaga stjórnarinnar er sú að 600 þúsund króna greiðslan sé endanleg greiðsla til varastjórnarmanna, óháð því hvort setnir fundir eru einn eða fleiri.

Lífeyrissjóðurinn leggur ekki til breytingar við óbreytt fyrirkomulag á greiðslu útlagðs kostnaðar erlendra stjórnarmanna. Tillögur stjórnar gera ráð fyrir að þeir geti fengið eftir sem áður 300 þúsund krónur greiddar til að mæta kostnaði sínum vegna ferðalaga til og frá fundum.

Segir í greinargerð Lífeyrissjóðs verslunarmanna að í tillögu sinni líti sjóðurinn til „eðlilegs umfangs og eðlis rekstrar og ábyrgðar“ líkt og fram komi í hluthafastefnu sjóðsins. Í tilviki Arion banka sé horft til sambærilegra starfseininga hérlendis og í því ljósi sé lagt til að stjórnarlaunin séu óbreytt.

Launin hjá Íslandsbanka lægri

Til samanburðar má nefna að fyrir aðalfundi Íslandsbanka, sem haldinn verður 18. mars næstkomandi, liggur tillaga stjórnar um að stjórnarlaun skuli verða 450 þúsund krónur á mánuði, laun varaformanns verði 560 þúsund krónur og laun stjórnarformanns verði 785 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK