Valið meðal þeirra bestu í markaðstæknilausnum

Ítalskir tiktok-áhrifavaldar að störfum.
Ítalskir tiktok-áhrifavaldar að störfum. AFP

Bandaríska vefritið CIO Applications, sem sérhæfir sig í markaðstækni, hefur valið áhrifavaldafyrirtækið Ghostlamp sem eitt af tíu bestu þjónustufyrirtækjum í markaðstæknilausnum í Evrópu. Valgeir Magnússon forstjóri Ghostlamp, sem prýðir forsíðu nýjasta tölublaðsins, segir í samtali við miðilinn að rétt eins og lampi Aladdíns í ævintýrinu í bókinni Þúsund og einni nótt, þá hjálpi Ghostlamp markaðsfólki að skapa áhrifavaldaherferðir drauma sinna.

Eins og lýst er í greininni hefur Ghostlamp upplýsingar í kerfi sínu um meira en 50 milljónir áhrifavalda um allan heim. Kerfi fyrirtækisins getur með sjálfvirkum hætti fundið, samið við og greitt áhrifavöldum fyrir þjónustu þeirra.

Stöðug þróun í gangi

Valgeir segir í samtali við Morgunblaðið að stöðug þróun sé í gangi hjá fyrirtækinu og síðar í þessum mánuði muni fyrirtækið í fyrsta skipti hefja samstarf með tiktok-áhrifavöldum. „Það er mjög spennandi viðbót,“ segir Valgeir.

Forsíðumyndin af Valgeiri Magnússyni.
Forsíðumyndin af Valgeiri Magnússyni.

Eins og hann útskýrir á Ghostlamp leitarvél sem leitar uppi áhrifavalda um allan heim. „Við vitum hvaða áhrif fólkið hefur og hvers konar fylgjendur það er með.“

Kerfið virkar þannig að þegar viðskiptavinur óskar eftir þjónustu áhrifavalda í gegnum Ghostlamp velur fyrirtækið rétta samsetningu áhrifavalda og sendir þeim tilboð um samstarf. Eftir að samningar nást fjalla áhrifavaldarnir um vörur viðskiptavinarins í færslum sínum á samfélagsmiðlum.

Spurður hvort áhrifavaldar séu alltaf til í tuskið þegar Ghostlamp bankar á dyrnar segir Valgeir að auðvitað séu aldrei allir tilbúnir í samstarf, en stór hluti sé reiðubúinn að vinna með fyrirtækinu. „Það fer oft eftir vörunni sem við erum að meðhöndla. Við erum að vinna með minni og meðalstórum áhrifavöldum og þeir eru oft varari um sig og vilja vera samkvæmir sjálfum sér í því sem þeir kynna fyrir aðra. Þeir eru ekki með nema það passi inn í þeirra lífsstíl. Stóru áhrifavaldarnir hafa annan hátt á því þar eru svo miklir peningar í spilinu. Þeir taka að sér nánast hvað sem er.“

Allt niður í þúsund

Eins og Valgeir útskýrir notast Ghostlamp við áhrifavalda sem eru með allt niður í eitt þúsund fylgjendur. Oft er þar um að ræða venjulegt fólk sem skilgreinir sig ekki endilega sem áhrifavalda og hafa margir til dæmis aldrei áður fengið greitt fyrir færslur sínar á samfélagsmiðlunum. „Fólk áttar sig ekki alltaf á að það sé með verðmæti í höndunum.“

Starfsemi Ghostlamp fer mest fram í Bandaríkjunum en einnig í Mið-Austurlöndum, Suður-Ameríku og Evrópu, að sögn Valgeirs. „Við erum líka aðeins farin að prófa okkur áfram í Afríku.“

Spurður um árangur af herferðunum segir Valgeir að oftast gangi herferðirnar vel, en það komi fyrir að þessi tegund markaðssetningar henti ekki vörunum sem um ræðir. „Viðskiptavinurinn verður þó aldrei fyrir skaða því okkar tilboð gengur út á að tryggja ákveðin viðbrögð. Ef illa gengur er það okkar vandamál.“

Í greininni í CIO Applications er nefnt dæmi af bandarísku verslanakeðjunni Whole Foods og vel heppnaðri herferð þeirra með Ghostlamp en fyrirtækið óskaði eftir því að fá áhrifavalda í nágrenni við allar Whole Foods-verslanir til að kynna atlantshafsbleikju. Áhrifavaldarnir voru beðnir að elda máltíð úr bleikjunni og birta á Instagram.

Lestu meira um málið í helgarblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK