Á aðalfundi Arion banka sem haldinn var í dag var tillögu um hækkun launa hjá stjórnarmönnum hafnað og verða laun þeirra flestra óbreytt.
Þó voru gerðar breytingar á launum þeirra stjórnarmanna sem búsettir eru erlendis; þeir fá 300.000 króna greiðslu fyrir hvern fund sem þeir sækja í eigin persónu og kalla á ferðalög til landsins en laun þeirra verða ekki lengur tvöföld á við aðra stjórnarmenn.
Þá var tillaga um greiðslu arðs að upphæð 2,99 milljarðar króna samþykkt auk ársreiknings bankans, sem og orðalagsbreytingar til einföldunar á samþykktum bankans. Ákveðið var einnig að Deloitte ehf. gegni áfram hlutverki sínu sem endurskoðandi Arion banka.
Á fundinum voru eftirfarandi aðilar endurkjörnir í stjórn í samræmi við tillögu tilnefningarnefndar:
Brynjólfur Bjarnason, Gunnar Sturluson, Liv Fiksdahl, Paul Richard Horner, og Steinunn Kristín Þórðardóttir. Brynjólfur Bjarnason var endurkjörinn formaður stjórnar og Paul Richard Horner kjörinn varaformaður. Herdís Dröfn Fjeldsted og Renier Lemmens fóru úr stjórn og voru þeim færðar þakkir fyrir góð störf í þágu bankans. Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir og Þröstur Ríkharðsson voru endurkjörin varamenn í stjórn.