Hækkun hlutabréfa Icelandair í Kauphöll Íslands endaði í 6% en þau tóku talsverðan kipp í kjölfar tíðinda um að ákveðið hefði verið að breyta reglugerðum þannig að Bandaríkjamenn og Bretar geti, á grundvelli framvísunar bólusetningarvottorðs, komið til Íslands.
Heildarvelta viðskipta með bréf Icelandair nam 166 milljónum króna.
„Við heilbrigðisráðherra lögðum báðar til að breyta okkar reglugerðum sem varða viðurkenningu vottorða utan Schengen. Ég mun einnig breyta því að bann við tilefnislausum ferðum yfir landamæri frá löndum utan Schengen gildi ekki fyrir þá sem eru bólusettir eða með mótefni,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra við mbl.is í morgun.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði: „Við erum í raun og veru að opna meira.“ Reglugerðarbreyting um vottorð á landamærum er að hluta til á forræði hennar ráðuneytis.